Reglur Heimavistar MA og VMA

Reglur Heimavistar MA og VMA

I

  1. Framkvæmdastjóri heimavistar ber ábyrgð á daglegum rekstri og eftirliti með umgengni, aga og reglum í samráði við stjórn Lundar ses.
  2. Sérhver íbúi ber ábyrgð á að fylgja þeim reglum um aga og umgengni sem gilda á heimavistinni og eru í samræmi við ákvæði skriflegs leigusamnings sem íbúi og Lundur gera sín á milli.
  3. Öll meðferð íbúa á áfengi og öðrum vímuefnum í húsum og á lóð heimavistar er stranglega bönnuð. Með meðferð áfengis og annarra vímuefna er átt við að bannað er að neyta þeirra, vera undir áhrifum efnanna, hafa efnin í vörslum sínum eða hafa tæki til neyslu í vörslum sínum í húsnæði heimavistarinnar eða á lóð hennar. Ef svo mikið sem orðrómur eða minnsti grunur vaknar um neyslu og/eða vörslu fíkniefna einhvers íbúa verður haft samband við foreldra/forráðamenn eins fljótt og kostur er, sama á við ef um lögráða íbúa er að ræða. Íbúar á heimavist sem grunaðir eru um neyslu áfengis eða annarra vímuefna skulu eiga kost á að gangast undir áfengis- eða vímuefnapróf. Ef niðurstaða prófsins sem framkvæmt er af hjúkrunarfræðingi hjá Heilsuvernd reynist jákvæð telst um brot að ræða samkvæmt 1. mgr. 3. gr. Ef íbúar á heimavist neita að gangast undir áfengis- eða vímuefnapróf þrátt fyrir rökstuddan grun um að þeir hafi neytt áfengis eða vímuefna skal litið svo á að þeir hafi brotið gegn 1. mgr. 3. gr. Brot á banni við meðferð áfengis og vímuefna varðar riftun á húsaleigusamningi. Framkvæmdastjóri heimavistar tilkynnir um riftun á húsaleigusamningi. Tilkynningin skal vera skrifleg og afrit sent til viðkomandi skólameistara. Komi til riftunar húsaleigusamnings skal íbúi á heimavist hafa rýmt herbergi sitt innan sjö daga frá dagsetningu tilkynningar um riftun. Með undirritun sinni á reglum þessum veita íbúar og forráðamenn þeirra heimild til að framkvæmdastjóra sé tilkynnt um niðurstöðu prófsins og að forráðamönnum verði tilkynnt um brot á reglum þessarar greinar.
  4. Íbúar mega aldrei koma undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna á heimavist. Gestum íbúa á heimavist er óheimilt að vera á heimavist ef þeir eru undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
  5. Íbúum og gestum er með öllu óheimilt að hafa með sér á heimvist neitt það er slysahætta stafar af svo sem vopn af hvaða tagi sem er. Sama gildir um eftirlíkingar sem hægt er að taka í ógáti sem raunveruleg vopn. Þá er öll meðferð elds óheimil í húsnæði heimavistar þar með talin noktun kerta og reykelsis.
  6. Öll notkun tóbaks, þar með talið munn- og neftóbaks er bönnuð í húsnæði eða á lóð heimavistar. Öll notkun á rafrettum er óheimil í húsnæði eða á lóð heimavistar. Með rafrettum er átt við tæki sem notað er til neyslu á gufu frá því. Ef íbúi á heimavist verður uppvís að brotum á tóbaksbanni þá skal áminna hann skriflega. Í áminningunni skal þess getið að ítrekað brot varði riftun á leigusamningi. Ef íbúar á heimavist eða gestir þeirra verða uppvísir af því að nota rafrettur í húsnæði heimavistar skal gera þær upptækar. Framkvæmdastjóri heimavistar skal einnig aðvara íbúa skriflega um að það geti varðað riftun á leigusamningi ef brotið er ítrekað gegn reglum um notkun rafretta. Tilkynning um riftun leigusamnings skal vera skrifleg og skal íbúi á heimavist hafa rýmt herbergi sitt innan sjö daga frá dagsetningu tilkynningar um riftun.
  7. Íbúar heimavistar skulu halda herbergjum sínum hreinum og snyrtilegum í samræmi við leiðbeiningar um hreingerningar og umgengni, sem eru hluti af leigusamningi. Íbúar skulu ganga vel um öll hús, lóð og umhverfi heimavistar.
  8. Herbergi íbúa eru yfirfarin í upphafi leigutíma og þegar honum lýkur. Er þá skráð útlit, ástand herbergis og búnaðar og ástand staðfest af leigutaka og leigusala. Bannað er að flytja húsgögn milli herbergja. Húsbúnaður er á ábyrgð íbúa allan leigutímann. Íbúar eiga að læsa herbergjum sínum og hirslum enda bera þeir ábyrgð á herbergi og húsbúnaði ef óboðnir gestir ganga þar um.
  9. Hver íbúi heimavistar greiðir tryggingargjald við upphaf leigutíma sem stjórn Lundar ákveður. Tryggingargjaldið er endurgreitt í lok leigutímans ef engar skemmdir hafa orðið á húsum og búnaði. Skemmdir á húsum eða búnaði skal tilkynna starfsmanni tafarlaust. Skemmdir, sem unnar eru vísvitandi eða ekki er tilkynnt um, geta valdið því að leigusamningi er rift.

II

  1. Húsnæði heimavistar  er læst en íbúar hafa aðgang að því allan sólarhringinn með korti. Gestakomur eru leyfðar en virða þarf að næðistími hefst kl. 23 og þá eiga allir gestir að vera farnir úr húsi. Öryggisvarsla er allar nætur.
    Íbúar skulu gæta þess sérstaklega að næturferðir þeirra valdi engu ónæði. Næðistími er frá kl. 23:00 til kl. 07:00 alla daga nema um helgar þá er næðistími frá kl. 23:00 til 10:00. Íbúar heimavistar skulu ávallt ganga hljóðlega um húsakynni og mega aldrei raska ró íbúa með hávaða og slæmri umgengni.
  2. Á próftíma skal vera algert næði allan sólarhringinn og enginn utanaðkomandi í húsunum.
  3. Íbúum er heimilt að fengnu leyfi þjónustustjóra að hafa hjá sér gest að næturlagi með samþykki herbergisfélaga. Ef íbúi og/eða herbergisfélagi er undir lögaldri þarf leyfi viðkomandi foreldra/forráðamanns. Sótt er um að hafa næturgest á heimasíðu heimavistarinnar. Næturgestir og aðrir gestir íbúa heimavistar eru að fullu á ábyrgð gestgjafa og skulu hlíta öllum sömu reglum og íbúar sjálfir. Sækja þarf um leyfi til að hafa næturgest með tveggja sólarhringa fyrirvara. Óheimilt er með öllu að hleypa inn gestum eftir lokun húsnæðis sem ekki er leyfi fyrir.
  4. Íbúi sem er fjarverandi lengur en sólarhring, skal af öryggisástæðum skrá sig á heimasíðu heimavistarinnar.
  5. Almennir fundir heimavistar s.k. gangafundir eru boðaðir með tveggja daga fyrirvara með auglýsingum við ganga heimavistar. Öllum íbúum er skylt að sækja boðaða gangafundi enda þar fjallað um málefni sem varða alla íbúa. Forföll skal tilkynna til starfsfólks.
  6. Leita skal samþykkis framkvæmdastjóra heimavistar til fundarhalda eða samkomuhalds í setustofu eða annars staðar í húsum heimavistar.

 

Heimavistarráð

    1. Ráðið kallast Heimavistarráð Heimavistar MA og VMA.
    2. Heimavistarráð er fyrst og fremst hagsmunaráð íbúa á Heimavist MA og VMA.
    3. Heimavistarráð fjallar um og gætir hagsmuna íbúa, gagnvart Lundi sem sér um og stendur að rekstri heimavistar.
    4. Heimavistarráð er skipað sjö heimavistarbúum, þremur fulltrúum úr röðum MA og þremur úr röðum VMA. Sjöundi fulltrúinn er sá sem fær flest atkvæði í kosningu án tillits til skóla. Kosning fer fram á almennum heimavistarfundi í upphafi hvers skólaárs. Heimavistarráð skal vera framkvæmdastjóra heimavistar innan handar í hvers kyns málum er upp kunna að koma á heimavistinni og vera tengiliður við íbúa.
    5. Þar til nýtt Heimavistarráð hefur verið kjörið að hausti skulu tveir fulltrúar, tilnefndir af fráfarandi Heimavistarráði, gegna skyldum Heimavistarráðs. Skulu þeir tveir, ásamt framkvæmdastjóra heimavistar, tilnefna þriggja manna kjörstjórn sem undirbýr framboð og sér um kosningar til Heimavistarráðs. Kosningarétt og kjörgengi til Heimavistarráðs hafa allir íbúar heimavistar. Kosningar til Heimavistarráðs eru leynilegar.
    6. Þegar kosið er til Heimavistarráðs þarf að minnsta kosti einn fulltrúi að vera lögráða. Ef enginn þeirra 7 aðila sem efstir eru í kjöri til heimavistarráðs er lögráða, skulu 6 efstu í kjörinu taka sæti í heimavistarráði og sá lögráða aðili sem flest atkvæði fær.
    7. Heimavistarráð kýs sér forseta, varaforseta og ritara. Ritari heldur fundabók um fundi ráðsins og annast skjalavörslu. Varaforseti er aðstoðarmaður forseta og staðgengill hans. Forseti Heimavistarráðs stjórnar fundum þess, undirbýr mál er varða heimavistina og íbúa hennar og skiptir öðrum verkum með heimavistarráði eftir því sem hann telur þörf á, m.a. í mötuneytisráð. Heimavistarráð skipar einn fulltrúa í stjórn Lundar og færir hann stjórninni álit íbúa og Heimavistarráðs á einstökum málum sem hún hefur til meðferðar sé þess óskað. Fulltrúi Heimavistarráðs verður að vera orðinn lögráða til að gegna því embætti.
    8. Ef íbúum finnst brotið á sér í einhvers konar málum geta þeir leitað til Heimavistarráðs sem skoðar málið nánar og ræðir við framkvæmdastjóra heimavistar.
    9. Heimavistarráð stendur fyrir einum til tveimur viðburðum á önn.
    10. Rísi óánægja með störf Heimavistarráðs getur fimmtungur vistarbúa borið fram vantraust á ráðið. Skal vantrauststillagan tekin fyrir á almennum fundi heimavistarbúa. Hljóti hún meirihluta atkvæða lætur heimavistarráð af störfum og nýtt ráð er kosið. Þær kosningar eru í höndum þriggja manna kjörstjórnar sem fundurinn kýs. ­­­­­­­

      Uppfært nóvember 2023